Um verkefnið

Íbúðirnar eru hannaðar með þarfir fólks á öllum aldri í huga. Hvort sem um er að ræða fyrsta heimili, barnafjölskyldur eða þá sem vilja minnka við sig og njóta sjávarútsýnis og fallegra gönguleiða. Hér býðst einstakt tækifæri til að búa í nýju og vönduðu húsnæði á þessum eftirsótta stað.

Húsin

Við Keilugranda 1-3, 5-7, 9 og 11 verða fjögur fjölbýlishús með samtals 78 íbúðum. Auk þess verður á lóðinni sérstætt hús fyrir hjól sem allir íbúar húsanna hafa aðgang að. Íbúðir á efri hæðum hafa svalir og íbúðir á jarðhæðum hafa sérafnotareiti.

Áhersla er lögð á að yfirbragð svæðisins sé aðlaðandi og að skali bygginganna sé brotinn upp bæði í efni og formi. Íbúðabyggingarnar eru frá því að vera tveggja hæða og upp í fimm hæða. Íbúðirnar eru fjölbreyttar að stærð og gerð. Um er að ræða allt frá stúdíóíbúðum og upp í 5 herbergja íbúðir. Við efnisval var horft til heildaryfirbragðs, vistvænleika og hagkvæmnissjónarmiða með tilliti til rekstrar og viðhalds. Burðarvirki íbúðarhúsanna er úr steinsteypu, þau eru einangruð að utan og klædd að mestu leyti með ljósu og dökkgráu báruáli. Einnig eru fletir á húsunum klæddir timbri sem gefa þeim aukinn hlýleika.

Íbúðirnar

Íbúðirnar eru mismunandi að stærð og gerð allt frá 35 fm smáíbúðum upp í 117 fm 4-5 herbergja íbúðir. Hverri íbúð fylgja rúmgóðar verandir eða svalir ýmist til austurs eða suðurs. Ljóst eikarharðparket frá Quik-Step er á gólfum nema á baðherbergum þar eru flísar. Innihurðir eru hvítar og innréttingar í ljósgráum lit. Innréttingar eru frá GKS og eldhústæki frá AEG. Í íbúðunum er hefðbundið ofnakerfi. Geymsluskápur fylgir hverri íbúð staðsettur í sameign.

Lóð og lýðheilsureitur

Um er að ræða nýja byggð í grónu fallegu hverfi við sjávarsíðuna. Hjá Búseta er lögð rík áhersla á að vanda frágang lóðar. Í verkefninu við Keilugranda myndaði Búseti samstarfi við Hermann G. Gunnlaugsson landslagsarkitekt um hönnun lóðarinnar og svokallaðs lýðheilsureits sem tengist lóðinni til suðausturs. Reiturinn er aðgengilegur almenningi og verður leitast við að mynda þar skjólgóðan áningarstað fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Góðar tengingar er einmitt að finna fyrir hjólandi og gangandi að sjálfri lóðinni og fyrirmyndaraðstaða fyrir þá sem nota reiðhjól sem fararskjóta. Bílastæðafjöldi er í samræmi við deiliskipulag, samtals 70 stæði. Hjólastæðafjöldi er í samræmi við deiliskipulag eða eitt stæði fyrir einstaklingsíbúðir og tvö stæði fyrir stærri íbúðir.

Þjónusta og menning

Vesturbær Reykjavíkur er eitt af rótgrónu hverfum Reykjavíkur, enda hverfi með langa og áhugaverða sögu. Keilugrandinn er í þeim hluta hverfisins sem liggur að Seltjarnarnesi í vestri og að miðbænum í austri og tengist þannig miðborginni þar sem er að finna hafsjó af veitingastöðum, verslunum og menningarviðburðum. Hofsvallagatan liggur skammt frá Keilugrandanum þar sem má m.a. finna Kaffihús Vesturbæjar, gott bakarí og hina víðfrægu Melabúð. Eiðistorgið er einnig innan seilingar með úrvali af verslunum og þjónustu. Sundlaug Vesturbæjar á sér fastan sess í lífi margra og gegna heitu pottarnir mikilvægu hlutverki í miðlun helstu dægurfrétta í samfélaginu. Eins og flestir vita er í hverfinu að finna góða leik- og grunnskóla. Þar á meðal eru Melaskóli, Hagaskóli, Landakotsskóli, Vesturbæjarskóli og Grandaskóli. Svo eru háskólarnir auðvitað ekki langt undan.

Umhverfið, útivist og íþróttir

Staðsetning húsanna á sjávarlóð við Keilugranda er einstök. Í námunda við reitinn er að finna fallegar göngu- og hjólaleiðir. Meðfram lóðinni við sjávarsíðuna liggur einn fjölsóttasti göngustígur borgarinnar. Þegar á stíginn er komið er stutt að ganga í átt að Gróttuvitanum til að horfa á fallegt sólarlagið. Í hina áttina liggur leiðin að Granda þar sem finna má fjölda veitingastaða, líkamsrækt og fleira. Íþróttafélagið KR myndar frábær tækifæri til íþróttaiðkunar og æskulýðsstarfs. Seltjarnarnesið er hluti af nærumhverfinu og þar er að finna fyrirmyndar aðstöðu til að stunda t.d. sund og golf.

Hönnuðir

  • Arkitektar: A2F arkitektar
  • Lagna-og burðaþolshönnun: Verkfræðistofa Þráins og Benedikts
  • Raflagnahönnun: Verkhönnun
  • Bruna- og hljóðhönnun: EFLA verkfræðistofa
  • Verkeftirlit: EFLA verkfræðistofa
  • Lóðarhönnun: Storð

Byggingarverktaki:

  • Alverk