Skilalýsing - Keilugrandi 1-3

Hönnuðir:

Aðalhönnuðir hússins eru A2F arkitektar. Stofan var stofnuð af Aðalheiði Atladóttur, arkitekt FAÍ og Falk Krüger, arkitekt FAÍ AKB. A2F arkitektar búa yfir mikilli reynslu á sviði mannvirkjagerðar og skipulags, á Íslandi og á meginlandi Evrópu og hafa sérhæft sig í hönnun á íbúðarhúsum. Fyrirtækið hefur unnið til fjölda verðlauna og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín.

Byggingarverktaki:

Alverk var stofnað árið 2007 af Aðalgeiri Hólmsteinssyni. Félagið hefur áður unnið með Búseta að stýriverktöku við Einholt og Þverholt (svokallað Smiðjuholt). Fyrirtækið sinnir framkvæmda- og ráðgjafarverkefnum í mannvirkjagerð.

Almennt um húsin við Keilugranda 1-11

Byggingarnar við Keilugranda 1-11 eru tveggja til fimm hæða fjölbýlishús með alls 78 íbúðum í fjórum húsum. Íbúðirnar eru af ýmsum stærðum og gerðum, allt frá 35 m2 smáíbúðum og upp í 117 m2 íbúðir. Við þróun á verkefninu var lögð áhersla á fjölbreyttar íbúðir í aðlaðandi umhverfi, þar sem gætt er að birtuflæði ásamt hljóð- og loftgæðum. Allt innra og ytra efnisval er af gæðum. Íbúðir á efri hæðum hafa svalir og íbúðir á jarðhæðum hafa sérafnotareiti.

Miðsvæðis á lóðinni rís hús undir hjólageymslu sem allir íbúar hafa aðgang að. Fyrir framan hjólahúsið er pallur með skyggni sem aðgengilegt er öllum íbúum, en þar er hægt að dvelja eða gera við hjól.

Lóð bygginganna afmarkast af þremur götum, Keilugranda til vesturs, Eiðisgranda til norðurs og Fjörugranda til suðurs. Gönguleiðir á svæðinu tryggja gott aðgengi að lóðinni og verður hluti þeirra með snjóbræðslu. Vel útfærð lýsing verður á lóðinni með hæfilegu birtumagni og þannig tekið tillit til nálægðar við íbúðir. Á milli húsanna á reitnum er gert ráð fyrir almennu útivistarsvæði samliggjandi við svokallaðan lýðheilsureit.

Garðrýmið er að mestu sameign allra. En út frá þeim íbúðum sem eru á jarðhæð eða næst aðkomuhæðum frá götum eru skilgreindir sérnotafletir sem eru með hellulögðu útisvæði, skjólveggjum og trjágróðri.

Frá öllum gangstéttum er hellulögð eða steypt göngusvæði að öllum inngöngum í stigahús, sorpgeymslur og önnur rými aðgönguhæða. Á lóðinni er lögð rík áhersla á að hafa aðgengileg hjólstæði nærri inngöngum íbúða. Á tveimur stöðum eru staðsett yfirbyggð sorpskýli. Annað er aðgengilegt frá Fjörugranda og hitt er aðgengilegt frá Keilugranda.Gætt er að góðu aðgengi neyðarbifreiða.

Sjötíu bílastæði eru á lóðinni og samtals fimm bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þau eru staðsett nálægt inngöngum í byggingar, þar af eru tvö stæði við Keilugranda 1-3 sem eru á inndregnu inngangssvæði á jarðhæð. Tvær hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla verða á lóðinni, önnur á norðurhluta lóðar og hin á suðurhluta lóðar. Gott aðgengi er tryggt að þremur sorpgeymslum á vestur- og austurhlið ásamt sorpgeymslu sem aðgengileg er frá bílastæðum norðan byggingar við Keilugranda 1-3. Í öllum sorpskýlum og sorpgerðum verða niðurföll og tryggt verður aðgengi að spúlslöngum.

Keilugrandi 1-3

Byggingin er fimm hæða með samtals 46 íbúðum. Uppbrot er í formi og efnis- og litavali. Hallandi veggur og þak 5. hæðar gefur húsinu skemmtilegan svip og aukna lofthæð fyrir þá sem búa á efstu hæð hússins. Á fyrstu hæð eru tveir sameiginlegir inngangar með vindfangi og stigahúsi og lyftu upp á efri hæðir. Úr báðum stigahúsum er komið inn á gang með sex stúdíóíbúðum. Íbúðunum tilheyra séreignareitir til suðurs. Tvær sameiginlegar geymslur fyrir hjól og geymsluskápa eru staðsettar á sitt hvorum enda hússins, til vesturs og austurs. Sorpgeymsla er með aðgengi frá bílastæði norðan megin hússins. Gert er ráð fyrir 16 sorpgámum sem rúma 660 lítra. Hluta bílastæða er stungið inn undir húsið norðan megin.

Innra skipulag frá annarri og til og með fimmtu hæðar er eins. Hæðirnar er samhverfar og skiptast í miðju, hvoru stigahúsi tilheyra fimm íbúðir á hverri hæð. Samtals eru því 10 íbúðir á hverri hæð: Fjórar stúdíóíbúðir,  tvær tveggja herbergja íbúðir og fjórar þriggja til fjögurra herbergja íbúðir. Allar hafa þær svalir sem snúa til suðurs. Gott útsýni er úr íbúðunum og úr íbúðum á norðuhlið sést yfir Faxaflóa.

Frágangur utanhúss

Þak: Þak er einhallandi, uppstólað og einangrað á steypta plötu. Þaksperrur eru klæddar timburborðum og þéttað er með tvöföldum asfaltpappa. Veggur á norðurhlið á 5. hæð hallar að þaki og á þeirri hlið eru fimm kvistir.

Útveggir: Útveggir eru staðsteyptir, einangraðir að utanverðu og klæddir með perluhvítri og dökkgrárri báruálsklæðningu. Inndregnir veggfletir, t.d. á jarðhæð við bílastæði og veggfletir á inndregnum svölum og veröndum, eru klæddir með lerki-timburklæðningu. Loft við bílastæði á jarðhæð er klætt götuðum báruálsplötum í sama lit og veggklæðning. Loft við inndregnar svalir á 5. hæð er klætt lerki.

Gluggar/hurðir: Ál-tré gluggar og ál-tré hurðir eru frá Glerborg, hvít að innan og dökkgrá að utan. Gluggar og hurðir við aðalinngang byggingarinnar eru úr dökkgráu áli. Í gólfsíðum gluggum er gert ráð fyrir öryggisgleri í neðri hluta glugganna.

Svalir /verandir: Svalir byggingarinnar eru forsteyptar og festar með stáli við burðarvirki hússins. Svalirnar hafa létta skjólveggi. Svalirnar eru klæddar óbrennanlegu efni í flokki 1 að utanverðu, en timbri að innanverðu. Verandir við íbúðir á jarðhæð og verandir við tvær miðju íbúðir á annarri hæð eru hellulagðar.

Lóð: Lóð fullfrágengin með göngustígum, lýsingu, grasi og gróðri. Sjá nánar almenna lýsingu.

Bílastæði: Samtals eru 70 ómerkt bílastæði á allri lóðinni. Fimm bílastæði eru fyrir hreyfihamlaða og þar af eru tvö undir inndregnum hluta jarðhæðar Keilugranda 1-3.

Tvær hleðslustöðvar verða á lóð, ein norðan megin og önnur sunnan megin.

Frágangur innanhúss

Íbúðir

Gólf: Ljós (hvíttuð eik) harðkjarnaparket frá Quik-Step, grábrúnar flísar (taupe litur) á baði og geymslum (ef þær eru í íbúðum).

Veggir: Steypa og gifsveggir hvítir að lit, baðherbergi flísalagt með ljósum flísum.

Loft: Steypa, hvít að lit. Á 5. hæð eru hljóðísogsplötur í lofti og að hluta til niðurtekið loft.

Hurðir: Hvítar sprautulakkaðar með húnum í burstuðu stáli.

Anddyri: Parket er á gólfi. Skápar í anddyri (Nobilia frá GKS) ljósgráar hurðir og hliðar, með hillu og fataslá.

Eldhús: Innrétting (Nobilia frá GKS) ljósgráar hurðir og hliðar með dökkri borðplötu og höldum í burstuðu stáli. Ofn og spanhelluborð frá AEG (Ormsson). Útsog er frá eldhúsi. Gert ráð fyrir uppþvottavél.

Baðherbergi: Forsteyptar baðherbergiseiningar sem eru flísalagðar í hólf og gólf. Salerni með hæglokun. Innréttingar (Nobilia frá GKS) með skáp undir vaski og á vegg, ljósgráar hurðir og hliðar með dökkri borðplötu og höldum í burstuðu stáli. Sturta með glerhurðum. Tengingar eru fyrir þvottavél undir borði og þurrkara ofan á borði.

Geymsla/þvottahús (stærri íbúðir): Gólf flísalögð samsvarandi og gólf baðherbergja, tengi fyrir þvottavél og þurrkara.

Svefnherbergi: Fataskápar í hjónaherbergjum (Nobilia frá GKS), ljósgráar hurðir og hliðar. Parket á gólfum.

Sameign

Veggir: Valdir fletir veggja í stigahúsi eru málaðir í dökkum lit.

Hitakerfi: Lokað ofnakerfi.

Rafmagn: Greinatöflur í íbúðum fyrir smáspennu og lágspennu. Síma og tölvulagnir á völdum stöðum, en möguleikar á fleiri stöðum. Sjónvarpsloftnet og lagnir, tenglar á völdum stöðum.

Neysluvatn: Heitt neysluvatn er upphitað kalt vatn með heitu vatni frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Loftræsikerfi: Útsog frá gluggalausum rýmum með mótorum á þökum. Ferskloftsinntök inn í íbúðir á bak við ofna.

Anddyri/stigahús: Gólf á 1. hæð flísalögð, stigar og pallar teppalagðir. Lyfta stálklædd. Rafdrifnar hurðir í anddyri, aðrar hurðir með hurðapumpum. Dyrasími með myndavélakerfi. Póskassar í anddyrum.

Geymslur og sorp: Gólf með epoxy kerfi Top-4000. Geymsluskápar eru léttir stálskápar með lás.

Pláss fyrir reiðhjól í húsinu og hjólageymsluhúsi á lóð, sem og utanhúss.

Sorpgeymslur inni í húsi með aðgengi frá bílaplani. Gert er ráð fyrir flokkun sorps.

Önnur atriði

Vísað er til hönnunargagna (m.a. byggingarnefndarteikninga) varðandi nákvæmar útfærslur á atriðum sem ekki koma fram í skilalýsingunni. Auglýsingaefni og þrívíðar skýringarmyndir eru eingöngu til hliðsjónar. Komi upp misræmi eru samþykktar teikningar hönnuða gildandi. Skil hússins miðast við vandaðan frágang og viðurkennd skil á nýju íbúðarhúsnæði.

Komi til framkvæmda kaupenda eftir afhendingu skal tekið fram að ekki er heimilt að skerða burðarþol, hljóðvist o.þ.h. eða hafa áhrif á húshluta sem tilheyra sameign hússins.

Eins og þekkt er í nýjum íbúðum getur verið talsverður byggingaraki í byggingarhlutum. Þessi raki mun að jafnaði hverfa á einu til tveimur árum en það er þó háð útloftun í íbúðum. Allar íbúðir eru búnar vélrænni loftræstingu en til þess að hún hafi fulla virkni þarf að tryggja innstreymi lofts í gegnum opnanleg fög. Nauðsynlegt er að fylgjast með vatnsmyndun (döggun) innan á gleri. Ef mikil bleyta safnast saman neðst á glerinu getur vatnið skemmt glugga, gólfefni, málningu og spörtslun. Því er mikilvægt að hafa gluggafögin lítillega opin til að tryggja útloftun, sérstaklega þegar tekur að kólna.

Laus búnaður o.þ.h. sem sýndur er á teikningum en sem ekki er upptalinn í skilalýsingu þessari fylgir ekki.